Félag atvinnurekenda (FA) sendi á miðvikudag bréf til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis þar sem skorað er á stjórnvöld að bregðast við eignarhaldi fjármálafyrirtækja á fyrirtækjum í óskyldum rekstri.

Meðal annars er lagt til að settar verði skýrari reglur sem komi í veg fyrir skuggastjórnun fjármálafyrirtækja á fyrirtækjum í óskyldum rekstri, að Fjármálaeftirlitið (FME) birti betri tölfræði og oftar og taki sérstaklega tillit til samkeppnissjónarmiða þegar ákvarðanir eru teknar varðandi fyrirtæki í samkeppni. FA vill einnig að lögum um fjármálafyrirtæki verði breytt á þann veg að tímamörk eignarhalds verði 6 mánuðir í stað 12. Þegar fyrirtæki sækir um aukinn frest þurfi svo að birta nafn viðkomandi fyrirtækis sem fresturinn tekur til og eignarhluta fjármálafyrirtækisins í fyrirtækinu.