Fjármálaeftirlitið hefur fallist á erindi fjármálaráðuneytisins frá því á föstudag um að veita frekari tímafrest til að ljúka samningum og útgáfu fjármálagernings um uppgjör vegna ráðstöfunar eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til nýja Landsbankans, eða NBI hf. Í nýjustu ákvörðun FME, sem er níunda breyting á ákvörðun frá því 9. október í fyrra, segir að útgáfu fjármálagernings og fjármögnun nýja Landsbankans skuli lokið eigi síðar en þann 18. september nk. og lokauppgjöri vegna ráðstöfunar eigna og skulda gamla bankans til þess nýja eigi síðar en 30. september. Áður hafði FME veitt frest til 14. ágúst til að gefa út fjármálagerninginn.

Frestir vegna Kaupþings og Íslandsbanka til 28. ágúst

Fjármálaráðuneytið fór einnig fram á frest til lokafrágangs á fjármögnun Nýja Kaupþings og Íslandsbanka og skjalagerðar vegna útgáfu fjármálagernings um uppgjör vegna ráðstöfunar eigna og skulda gömlu bankanna til þeirra nýju.

FME breytir því ákvörðun sinni varðandi Kaupþing í sjöunda sinn og varðandi Glitni og Íslandsbanka í áttunda sinn. Í nýju ákvörðuninni segir að útgáfu fjármálagerninga skuli lokið eigi síðar en þann 28. þessa mánaðar.