Fjármálaeftirlitið fær ekki fimm hundruð milljóna króna IPA-styrk frá Evrópusambandinu vegna nýlegrar ákvörðunar ESB um að ekki verði undirritaðir fleiri samningar um slíka styrki vegna hlés á aðildarviðræðum. Féð átti að nota í stórt verkefni til að meta áhættu í fjármálakerfinu. Forstjóri FME segir óverjandi að hætta við verkefnið. Frá þessu var greint í hádegisfréttum RÚV.

Verkefni Fjármálaeftirlitsins nefnist áhættumiðað eftirlit. Það gengur út á að byggja upp innviði stofnunarinnar og innleiða sambærilegar aðferðir við að meta áhættu í fjármálakerfinu og tíðkast á evrópska efnahagssvæðinu. Með nýjum greiningartólum verði eftirliti forgangsraðað eftir því hvar áhættan liggur í kerfinu. IPA-styrkurinn var 85 prósent þess fjármagns sem þarf í verkefnið. Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri FME, segir í samtali við RÚV að nú þurfi að gera nýjar áætlanir.

Unnur bendir einnig á að eftir hrun hafi erlendir sérfræðingar tekið út starfsemi Fjármálaeftirlitsins og það sé nútímakrafa að hafa áhættumiðað eftirlit. Því sé verkefnið mikilvægt til að efla traust á fjármálamarkaðnum hér á landi. Undirbúningur verkefnisins er þegar hafinn. Unnur segir óverjandi að hætta við verkefnið.