Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja með víðtækum hætti vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, samkvæmt frumvarpi sem forsætisráðherra, Geir H. Haarde hefur lagt fram á Alþingi.

„Í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði er mikilvægt að stjórnvöld hafi heimild til að grípa til nauðsynlegra aðgerða, þar á meðal yfirtöku fjármálafyrirtækis, í heild eða að hluta, eftir atvikum með stofnun nýs fjármálafyrirtækis," segir meðal annars í skýringum frumvarpsins.

Þar segir að ljóst sé að fjárhags- og rekstrarvandi „kerfislega mikilvægra banka", eins og það er orðað, geti haft mjög alvarleg keðjuverkandi áhrif á fjármálamarkaðinn og íslenskt hagkerfi og ógnað fjármálastöðugleika.

„Kostnaður þjóðfélagsins af gjaldþroti kerfislega mikilvægra fjármálafyrirtækja yrði umtalsverður, ef á reyndi, og erfitt að byggja trúverðugleika upp á ný," segir í skýringum frumvarpsins.

Frumvarpið í heild sinni má finna hér .