Fjármálaeftirlitið ákvað þann 6. desember síðastliðinn að víkja Sigurði Jóhannessyni einhliða frá störfum sem stjórnarmanni Stapa lífeyrissjóðs á grundvelli laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Í tilkynningu FME er vísað í lagagrein sem segir að ef stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar eftirlitsskyldra aðila uppfylli ekki hæfisskilyrði geti FME krafist þess að viðkomandi láti af störfum. Ef kröfum er ekki sinnt innan hæfilegra tímamarka getur eftirlitið einhliða vikið viðkomandi frá störfum, eins og í tilviki SIgurðar.

Stjórn FME tók ákvörðun þann 3. október síðastliðinn um að Sigurður teldist ekki uppfylla hæfisskilyrði og gerði kröfu um að hann léti af störfum sem stjórnarmaður Stapa lífeyrissjóðs innan tveggja vikna frá því að ákvörðun barst honum. Rúmum sjö vikum eftir að ákvörðun barst honum, þann 6. desember, hafði Sigurður enn ekki orðið við kröfu stjórnar FME. Af þeim sökum vék FME honum frá.