*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 11. september 2020 10:14

FME vilja mat á fjárfestum í Icelandair

„Við erum bjartsýn á að þetta muni ekki koma í veg fyrir þátttöku almennings og starfsmanna,“ segir Icelandair um reglur FME.

Ritstjórn
Aðrir ljósmyndarar

Þeir almennu fjárfestar sem hyggjast taka þátt í hlutafjárútboði Icelandair í næstu viku þurfa að sýna fram á reynslu og tilhlýðilega þekkingu af áskriftarréttindum sem fjármálagerningi að því er Fréttablaðið hefur eftir Fjármálaeftirlitinu. Er þetta talið í fyrsta sinn sem einstakir þátttakendur í hlutafjárútboði þurfa að fylgja reglum um svokallað tilhlýðileikamat, en þau gilda ekki um fagfjárfesta.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um verður 23 milljarða króna hlutafjárútboð Icelandair haldið fimmtudag og föstudag 16. og 17. september næstkomandi, þar sem hinir nýju hluthafar geta eignast allt að 80% í félaginu.

Hluthafafundur Icelandair samþykkti útboðið í fyrradag, sem og tillögu um að hinum nýju hlutum í félaginu fylgi áskriftarréttindi sem samsvari allt að 25% af skráningu nýrra hluta, sem ef verða nýttir þynna hlut núverandi hluthafa enn frekar.

Þurfa að ráðleggja fjárfestum frá

Fjármálaeftirlitið hefur eftir skoðun komist að þeirri niðurstöðu að áskriftarréttindin sem eru í boði teljist til flókinna fjármálagerninga. Það þýðir að fjármálafyrirtækin sem sjá um söluna þurfa að gera tilhlýðileikamat þar sem þeir meta hvort fjárfestingin sé viðeigandi fyrir þá sem hafa áhuga á fjárfestingunni.

Það er þeir þurfa að afla upplýsinga um þekkingu og reynslu fjárfesta af áskriftarréttindum og verða að ráðleggja þeim frá viðskiptum sem þeir telja fjárfestinguna ekki viðeigandi fyrir.

Áskriftarréttindin sem um ræðir gefa nýju fjárfestunum kost á að kaupa ný bréf í félaginu, sem útgefin verða fyrir allt að fjórðungi nýju bréfana sem verða gefin út, sem bera 15% vexti á ársgrundvelli. Það þýðir að nýju hlutirnir kosta 15% meira eftir eitt ár, en rétturinn til að nýta þau verður í tvö ár, svo eftir þann tíma munu þau kosta allt að þriðjungi meira en í útboðinu nú.

Í útboðslýsingunni kemur til að mynda fram að verð á bréfi sem nýti áskriftarréttindi og gefið er út 3. ágúst 2021 og borgað fyrir 13. ágúst 2021 sé 1,13, bréf gefið út 8. febrúar 2022, og borgað fyrir 18. febrúar 2022 fáist á 1,22 krónur og bréf gefin út 2. ágúst 2022, og greidd 12. ágúst 2022 (stendur reyndar 2021 sem væntanlega er villa), kosti 1,30 krónur.

Almenningur geti séð hvort nýting réttindanna séu hagstæð

Fagfjárfestar eru undanskyldir slíku tilhlýðileikamati, en í svari Icelandair við fyrirspurn um málið segir félagið að þeir vilji ekki takmarka útboðið einungis við þá, því félagið vilji hafa dreifða eignaraðild. Jafnframt telur félagið að áskriftarréttindin séu í eðli sínu sambærileg kaupréttum sem margir þekki og hafi skilning á, sem og áskriftarréttindunum fylgi engin skylda til að nýta hann.

„Ef verð á markaði er lægra en viðmiðunarverð kaupréttar, þá getur almennur fjárfestir séð að kaupin eru honum síður hagstæð. Því er svo vitanlega öfugt farið ef verð á markaði er hærra en viðmiðunarverð kaupréttar,“ segir m.a. í svari Icelandair þar sem það er jafnframt sagt ósanngjarnt gagnvart almenningi að útiloka þátttöku þeirra í útboðinu vegna reglnanna.

„Við erum bjartsýn á að þetta muni ekki koma í veg fyrir þátttöku almennings og starfsmanna, enda um tiltölulega einföld viðskipti að ræða sem að flestir munu hafa skilning á, þó að lögin skilgreini þau sem flókinn fjármálagerning.“