Fjármálaeftirlitið hefur sent íslensku bönkunum fyrirspurn þar sem óskað er eftir svörum um hvort bankarnir veiti viðskiptavinum sínum svokallaða aflandsþjónustu.

Fréttastofa RÚV greinir frá þessu í dag en þar er rætt við Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóra eftirlitsins. Hann segist ekki hafa forsendur til að áætla hvort að nýju bankarnir veiti aflandsþjónustu, en að eftirlitinu hafi þó fundist rétt að spyrja forsvarsmenn bankanna.

Jón Þór segir að athugun FME muni fela í sér hvort bankarnir hafi verið að stunda starfsemi sem gæti flokkast undir þjónustu við stofnun eða rekstur á aflandsfélagi. Frekari aðgerðir verða teknar með hliðsjón af þeim svörum sem þeim berast auk þeirra upplýsinga sem munu koma til vegna gagnalekans.