*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 19. október 2019 15:05

FME vill takmarka útvistun sjóða

Að mati FME er marktækur munur á vali á fjárfestingum lífeyrissjóða í rekstri banka eða annarra sjóða samanborið við aðra.

Jóhann Óli Eiðsson
Fjárfestingar lífeyrissjóða í verkefni United Silicon eru sérstaklega nefndar til sögunnar í bréfinu.
Haraldur Guðjónsson

Fjármálaeftirlitið (FME) telur að athuga eigi hvort rétt sé að takmarka hvaða verkefnum lífeyrissjóðum landsins er heimilt að útvista til annarra aðila og hvort þeim sé þá heimilt að útvista rekstri sínum í heild til annars aðila. Þetta er meðal þess sem kemur fram í bréfi sem FME sendi fjármála- og efnahagsráðuneytinu (FJR) í mars í fyrra. Í bréfinu er lagt til að sjóðunum verði óheimilt að útvista bæði eignastýringu og áhættustýringu til annars aðila.

Hér á landi er 21 lífeyrissjóður starfandi en heildareignir þeirra, samkvæmt ársreikningum síðasta árs, nema tæplega 4.239 milljörðum króna og jukust um 7,8% milli ára. Eðli málsins samkvæmt skiptast þeir milljarðar ekki jafnt milli sjóða en eignir stærsta sjóðsins, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), eru meiri en þrettán minnstu sjóðanna samanlagt.

„Í störfum sínum hefur FME tekið eftir markverðum mun á vali á fjárfestingum lífeyrissjóða í rekstri banka og annarra lífeyrissjóða, auk þess sem hlutverk, virkni og aðhald stjórna sem útvista öllum rekstri virðist ekki vera í samræmi við tilgang laga [um skyldutryggingu lífeyrisréttinga og starfsemi lífeyrissjóða],“ segir í bréfi FME.

Þar er þess enn fremur getið að sex lífeyrissjóðir séu í rekstri banka og þrír sjóðir í rekstri annarra lífeyrissjóða. Í síðarnefnda flokkinn falla sveitarfélagasjóðir með bakábyrgð sveitarfélaga. Samkvæmt upplýsingum frá FME eru átta lífeyrissjóðir sem hvorki útvista eigna- né áhættustýringu. Í þeim tilfellum er þó mögulegt að samningur hafi verið gerður við einstaka aðila um stýringu sérgreinds hlutabréfasafns. Jafn margir sjóðir, það er átta talsins, útvista bæði eigna- og áhættustýringu til banka, lífeyrissjóðs eða eignastýringafélags. Tveir sjóðir útvista báðum flokkum en hafa áhættumælingar innanhúss og einn sjóður útvistar hvoru tveggja að hluta. Þá er einn sjóður sem útvistar áhættumælingum og annar sem útvistar eignastýringu að hluta.

Komi í veg fyrir „skúffufélög“

Samkvæmt fyrrnefndum lögum er það hlutverk stjórnar lífeyrissjóða að ráða framkvæmdastjóra sjóðanna og ákveða kjör hans. Honum ber að annast daglegan rekstur og skal hann fara eftir stefnu og fyrirmælum stjórna. „Í framkvæmd er það ekki raunin hjá þeim lífeyrissjóðum sem hafa útvistað allri starfsemi sinni til banka, en þar er framkvæmdastjóri undantekningarlaust starfsmaður bankans og lýtur boðvaldi hans,“ segir í bréfinu. Þar er þess einnig getið að í slíkum tilvikum sé innri endurskoðun vanalega í höndum bankans og hið sama gildi um ábyrgðaraðila áhættustýringar. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: FME Lífeyrissjóðir