Búið er að leggja niður svonefndan Fóðursjóð þremur árum eftir að Ríkisendurskoðun benti á að sjóðurinn væri dæmi um ógagnsæja og óþarfa stjórnsýslu. Árið 2012 vakti stofnunin athygli á því að tollar sem innflytjendur dýrafóðurs ættu að greiða samkvæmt lögum væru að stærstum hluta felldir niður áður en til greiðslu þeirra kæmi.

Tollarnir áttu að renna í Fóðursjóð, en Ríkisendurskoðun benti á að starfsemi sjóðsins væri dæmi um ógagnsæja og óþarfa stjórnsýslu og beindi því þess vegna til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að sjóðurinn yrði lagður niður og fóðurtollar yrðu afnumdir. Nú hefur lagasetning verið samþykkt þar sem þessum tilmælum Ríkisendurskoðunar er framfylgt og heyrir Fóðursjóður því sögunni til.