Birtingur útgáfufélag ehf. hefur keypt Útgáfufélagið Fögrudyr ehf. og verður rekstur félaganna sameinaður nú um áramótin að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Baugi Group.

Hlutafé Birtings hefur jafnframt verið hækkað og er nú 215 milljónir króna. Í tilkynningunni segir að félagið sé skuldlaust með trausta eiginfjárstöðu. Er von eigendanna að velta félagsins á næsta ári geti orðið yfir einum milljarði króna. Hið sameinaða félag er eigandi tímaritanna Ísafoldar, Vikunnar, Mannlífs, Gestgjafans, Nýs lífs, Séð og heyrt, Húsa- og híbýla, Veggfóðurs, Hér og nú, svo dæmi séu tekin. Eigendur hins sameinaða félags eru Hjálmur ehf., sem er að öllu leyti í eigu Baugs Group hf. (60%), LL eignir ehf., sem er í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar hrl. (28%), Elín Guðrún Ragnarsdóttir (10%), Reynir Traustason, Mikael Torfason og Jón Trausti Reynisson.

Stjórnarformaður Birtings ehf. er Sigurður G. Guðjónsson, en með honum í stjórn eru Sverrir Arngrímsson og Egill Þorvarðarson. Framkvæmdastjóri er Elín Guðrún Ragnarsdóttir.

"Með sameiningunni verður til öflugt útgáfufélag í tímaritaútgáfu á Íslandi með alla burði til að bæta þau tímarit, sem fyrir eru, svo og að sinna nýsköpun á þessu sviði, t.d. gagnvart íþróttaunnendum og áhugamönnum um sögu og sagnfræði. Áform eru uppi um ný tímarit m.a. á þeim sviðum sem hér hafa verið nefnd. Eigendur Birtings hafa mikla trú á félaginu og möguleikum þess og telja að með reyndum stjórnendum, góðum blaðamönnum og auknum fjárhagslegum styrk muni félaginu farnast vel í framtíðinni," segir í fréttinni.