Viðskiptablaðið skoðaði leiguverð frá 1. september í fyrra og þar til 10. apríl í ár. Af þeim sveitarfélögum sem skoðuð voru var hæsta fermetraverðið á Seltjarnarnesi, eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá. Næst hæsta leiguverð á fermetra var í Reykjavík og af sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins var lægsta fermetraverðið í Mosfellsbæ.

Í nýrri verðsjá Þjóðskrár Íslands er einnig hægt að skoða leiguverð eftir svæðum og hverfum. Þegar það er gert kemur til dæmis í ljós að í miðborginni, frá Tjörninni að Snorrabraut, hefur 67 samningum fyrir þriggja herbergja íbúðum verið þinglýst frá 1. september í fyrra. Meðalverðið var 187 þúsund fyrir 75 fermetra íbúð, sem þýðir að fermetraverðið í miðborg Reykjavíkur var 2.556 krónur og slær miðborgin því Seltjarnarnesi við því þar var leiguverð á fermetra 2.488 krónur.

Í Seljahverfi í Breiðholti kostaði að meðaltali 168 þúsund að leigja 86 fermetra, þriggja herbergja, íbúð. Fermetraverðið þar var 1.983 krónur og verðið í miðborginni því um 30% hærra.

Á höfuðborgarsvæðinu var meðalleiguverð 179 þúsund krónur fyrir 85 fermetra íbúð, sem þýðir að fermetraverðið var 2.160 krónur.

Athuga ber að í þessari grein er verið að fjalla um meðalleiguverð samkvæmt þinglýstum samningum síðustu sjö mánuði. Ef skoðað væri verð síðasta mánuðinn yrði meðaltalið vafalaust hærra. Sem dæmi var verið að auglýsta 15 fermetra herbergi í Háaleiti á Facebook í dag og var verðið 90 þúsund. Þá er nú til leigu 4 herbergja íbúð í Hörðalandi Reykjavík. Íbúðin er 85 fermetrar og er verðið 260 þúsund.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .