Stærsta einbýlishús landsins er enn til sölu. Húsið er við Sunnuflöt í Garðabænum. Hafist var handa við að byggja húsið árið 2010 og hefur það verið fokhelt síðan þá. Húsið er í eigu Landsbankans. Það var upphaflega falt fyrir 93 milljónir króna. Síðan þá hefur verðmiðinn lækkað nokkuð og stendur hann í 69,8 milljónum króna. Húsið hefur verið um langt skeið til sölu og margir sýnt því áhuga, að sögn Eiríks Svans Sigfússonar, fasteignasala hjá Fasteignasölunni Ási. Húsið seldist reyndar í byrjun árs með fyrirvara um fjármögnun. Hún gekk hins vegar ekki eftir og varð því ekkert úr viðskiptunum. Önnur tilboð sem gerð hafa verið í húsið hafa verið of lág.

Húsið er engin smásmíði. Það er 930 fermetrar að stærð með bílskúr. Lóðin öll er tæpir 1.600 fermetrar og er hún girt af með steypuvegg. Gert er ráð fyrir 11 herbergjum, tómstundaherbergi, vínkjallara, líkamsræktarsal og sundlaug ásamt gufubaði.

Nokkrar hugmyndir hafa verið uppi hvað eigi að gera við húsið. Ein þeirra felur í sér að húsið verði fullklárað og leigt stórstjörnum þegar þær þurfa að dvelja hér á landi við tökur á kvikmyndum eða í öðrum erindagjörðum.