Sameiginlegar skuldir Földungs og Svartháfs nema hátt í 80 milljarða króna samkvæmt síðustu birtu ársreikningum félaganna. Raunverulegar eignir félaganna eru saman í kringum 1,3 milljarða króna virði og því hefur þorri lána til þeirra tapast. Glitnir var langstærsti lánveitandi beggja félaganna.

Félögin tvö voru meðal annars notuð til að endurfjármagna skuldir Milestone, félags Karls og Steingríms Wernerssona, og félags í eigu Einars og Benedikts Sveinssona við bandaríska bankann Morgan Stanley skömmu fyrir bankahrun. Þau voru einnig notuð til að hýsa milljarða lán frá Sjóvá sem notuð voru í fjárfestingarverkefni og til að fjárfesta í erlendum fjárfestingarsjóði sem nú er gjaldþrota.

Földungur skuldar 38 milljarða

Földungur, sem hét upphaflega Vafningur, var stofnaður í febrúar 2008. Félagið skuldaði 38 milljarða króna í lok árs 2009, samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Upphaflega var félagið sett á fót til að taka við 100 milljóna evra láni frá Glitni í febrúar 2008. Tilgangurinn var að endurfjármagna hluta láns Þáttar International (félags í eigu Milestone og bræðranna Einars og Benedikts Sveinssona) hjá bandaríska bankanum Morgan Stanley sem hafði verið veitt til að kaupa hlutabréf í Glitni. Glitnisbréfin voru sett sem veð fyrir láninu. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, skrifaði undir veðsetningu bréfanna fyrir hönd Einars og Benedikts, föður síns.

Í mars 2008 endurgreiddi Földungur 50 milljónir evra af láninu og var veðinu á Glitnisbréfunum aflétt á sama tíma. Sömu bréf voru síðan notuð sem veð fyrir 190 milljóna evra láni til Svartháfs. Það fé var svo notað til að greiða upp afganginn af láninu frá Morgan Stanley. Sjö mánuðum síðar voru hlutabréfin í Glitni, sem sett voru að veði, orðin verðlaus.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir tölublöð.