*

þriðjudagur, 4. ágúst 2020
Frjáls verslun 26. desember 2018 13:05

Fólk að olnboga sig áfram

Valdabarátta innan verkalýðshreyfingarinnar hefur litað alla umræðu um kjarasamninga að sögn fyrrverandi formanns SA.

Trausti Hafliðason
Björgólfur Jóhannsson.
Haraldur Guðjónsson

Björgólfur Jóhannsson var formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) frá 2013 til 2017. Í tímariti Frjálsrar verslunar, sem kom út fyrir skömmu er hann spurður út í stöðuna á vinnumarkaði en um áramótin losnar fjöldi samninga á almennum launamarkaði.

Óhætt er að segja að töluverður titringur hafi verið vegna þessa í þjóðfélaginu og margir óttast að erfitt verði að semja og jafnvel að hér bresti á með verkföllum.

„Ég held að kjaramálin séu bara verkefni eins og oft áður,“ segir Björgólfur í viðtalinu. „Þetta er dálítið snúnara núna að því leyti að það hefur verið valdabarátta verkalýðsmegin. Þar hefur fólk verið olnboga sig áfram og þess vegna verið með miklar yfirlýsingar. Ég held að rykið þurfi aðeins að setjast því ég held að það sjái það allir að hækkun launa upp á marga tugi prósenta gengur ekki upp.

Reynsla mín af verkalýðsforystunni er góð. Upp til hópa er þetta skynsamt fólk. Ég held að það sjái það allir að lífskjör hafa batnað mikið á síðustu árum. Auðvitað hafa ákveðnir hópar orðið útundan og hvernig á að rétta þeirra hlut er meginverkefnið að mínu viti. Ég vil ekki trúa því að hér verði verkföll. Ég held að aðilar, beggja vegna borðs, muni reyna að koma málum þannig fyrir að það muni ekki gerast. Það er hins vegar alveg ljóst að Samtök atvinnulífsins geta ekki orðið við þeim kröfum sem lagðar hafa verið á borðið. Ég er svolítið hræddur um að það verði þannig átök að þau leiði til verkfalla. Ég vil samt trúa því að skynsemin nái yfirhöndinni. Að menn nái að semja á skynsamlegum nótum þannig að lífskjör muni viðhaldast frekar en að samið verði um einhverjar háar prósentur, sem verðbólgan étur síðan upp.“

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst askrift@vb.is.