Benedikt Gíslason hefur verið ráðinn  framkvæmdastjóri markaðsviðskipta FL Group. Hann mun hefja störf 2. maí. Í tilkynningu félagsins kemur fram að Benedikt hefur áralanga reynslu af fjárfestingum á innlendum og erlendum mörkuðum og hefur á síðustu árum byggt upp og stýrt eigin viðskiptum Straums-Burðaráss Fjárfestingarbanka.

Ákveðið hefur verið að gera breytingar á skipulagi FL Group. Starfssvið eigin viðskipta (e. Proprietary Trading) verður útvíkkað og heiti sviðsins breytt í markaðsviðskipti (e. Capital Markets). Markaðsviðskipti FL Group mun hafa umsjón með skammtíma fjárfestingum á verðbréfamörkuðum um heim allan og stöðutöku félagsins í gjaldeyri. Jafnframt mun sviðið annast markaðsviðskipti fyrir fjárfestingarsvið FL Group, ráðgjöf og framkvæmd afleiðu- og verðbréfaviðskipta tengdum eignasafni félagsins á hverjum tíma, hvort sem er í fjárfestingar- eða áhættuvarnartilgangi.

Auk Benedikts munu þrír aðrir starfsmenn hefja störf hjá markaðsviðskiptum FL Group, en þeir hafa allir starfað hjá Straumi-Burðarási. Með ráðningu þessara fjögurra starfsmanna hefur þannig verið lagður grunnur að því að sameina á einum stað innan félagsins sérfræðiþekkingu á markaðsviðskiptum og gert er ráð fyrir að efla enn frekar þá starfsemi segir í tilkynningu.

Albert Jónsson, sem áður var í forsvari fyrir eigin viðskipti FL Group, hefur ákveðið að snúa sér að öðrum verkefnum.


?Við teljum tvímælalaust mikinn feng í hinum nýju starfsmönnum. Þeir ráða yfir mikilli færni á sviði markaðsviðskipta ásamt því að hafa góð tengsl á þeim mörkuðum sem FL Group starfar á. Við teljum að það muni nýtast félaginu vel við uppbyggingu markaðsviðskipta félagsins, bæði hérlendis sem og á öðrum starfsstöðvum félagsins.

Ég vil nota tækifærið og þakka Alberti Jónssyni fyrir hans góðu störf í þágu félagsins og þátt í uppbyggingu þess um leið og ég óska honum velfarnaðar í þeim verkefnum sem hann tekur sér fyrir hendur," segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group, í tilkynningu félagsins.