Bergur Hauksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf., segir í fréttatilkynningu, en Bergur gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra eignarumsýslu.

Bergur starfaði áður hjá Þyrpingu og hefur því mikla reynslu að því er snýr að rekstri fasteignafélaga, segir í tilkynningunni.  Hann er lög- og viðskiptafræðingur ásamt því að hafa próf í pípulögnum. Eignarhaldsfélagið Fasteign hf. sérhæfir sig í rekstri fasteigna í eigu opinbera fyrirtækja og fjármálafyrirtækja.

Ragnar Atli Guðmundsson hefur ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Fasteignar, en því hefur hann gengt frá stofnun þess. Áður hefur Ragnar Atli komið að uppbyggingu Kringlunnar og seinna rekstri og uppbyggingu Þyrpingar og Klasa hf.

Ragnar Atli hefur ákveðið að stofna eigin fyrirtæki í fasteignaþróun, sem heitir Þróun og Ráðgjöf.  Fyrirtækið mun taka að sér verkefni sem óháður og sjálfstæður aðili fyrir landeiganda, fjárfesta og verktaka allt frá hugmyndasköpun, stýringu á hönnun og verktöku, fjármögnun, sköpun rekstrarfélaga og til sölu og leigu á húsnæði.