Björgvin Guðmundsson, fréttastjóri á Fréttablaðinu, hefur verið ráðinn ritstjóri Markaðarins, fylgiblaðs Fréttablaðsins um viðskipti. Hafliði Helgason, fráfarandi ritstjóri blaðsins, hefur verið ráðinn til Reykjavík Energy Invest, sem er nýtt félag á sviði alþjóðlegra fjárfestinga í jarðvarmavirkjunum, að því er fram kemur í frétt á Vísi.is.

Þar segir að Hafliði muni starfa náið með Guðmundi Þóroddssyni forstjóra, Bjarna Ármannssyni stjórnarformanni og öðrum stjórnendum að mótun félagsins og samskiptum á alþjóðavettvangi.

Stefnt er að því að gefa út nýtt hlutafé í  Reykjavík Energy Invest og að Orkuveita Reykjavíkur verði kjölfestufjárfestir með um 40% hlutafjár.  Markið er sett á að búa yfir  50 milljörðum króna í eigið fé. Bjarni hefur lagt til 500 milljónir króna.

Björgvin tók þátt í að stofna Markaðinn í apríl 2005, segir í fréttinni, ásamt Hafliða Helgasyni, sem hefur ritstýrt blaðinu frá upphafi. Hafliði hefur starfað á Fréttablaðinu frá stofnun þess árið 2001.