Brynhildur Ólafsdóttir  fyrrum fréttamaður hefur verið ráðin forstöðumaður Samskiptasviðs hjá Saga Capital Fjárfestingarbanka. Hún mun hafa yfirumsjón með markaðsmálum bankans, almannatengslum hans og samskiptum við innlenda og erlenda samstarfsaðila. Þetta kemur fram í tilkynningu.

"Brynhildur hefur undanfarin 19 ár aðallega starfað við fjölmiðla, síðustu árin sem yfirmaður erlendra frétta á fréttastofu Stöðvar 2. Hún hefur jafnframt gegnt starfi forstöðumanns Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og sinnt stundakennslu í stjórnmálafræði. Brynhildur hefur víðtæka reynslu af alþjóðamálum og alþjóðasamskiptum og hefur meðal annars starfað sem fréttamaður fyrir íslenska, breska og bandaríska fjölmiðla í Mexíkó, á Kúbu og í Bosníu og sem sendifulltrúi Alþjóða Rauða krossins í Hondúras, Pakistan og Afganistan. Hún er útskrifaður stjórnmálafræðingur frá HÍ og er með mastersgráðu í alþjóðastjórnmálum og alþjóðasamskiptum frá Columbia háskóla í New York í Bandaríkjunum," segir í tilkynnngu.

Saga Capital er alþjóðlegur fjárfestingarbanki sem stofnaður var á síðasta ári og starfar á afmörkuðum sviðum fjármála og veitir þjónustu á sviði fyrirtækjaráðgjafar, útlána og verðbréfamiðlunar til fyrirtækja og fagfjárfesta.
Bankinn tók formlega til starfa í maí á þessu ári.  Eigið fé bankans er nú tæplega 11 milljarðar sem þýðir að Saga Capital er af svipaðri stærðargráðu og BYR og Icebank.