Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins verður Dr. Gunnar Ólafur Haraldsson næsti forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Hann tekur við starfinu af Dr. Tryggva Þór Herbertssyni sem tekið hefur að sér að stýra nýjum banka hér á landi.


Gunnar er B.Sc.(econ.) í hagfræði frá HÍ 1995 og M.Sc í sjávarútvegsfræðum frá Viðskipta- og hagfræðideild HÍ 1997. Hann lauk DEA-gráða (fyrsti hluti doktorsprófs í hagfræði frá háskólanum í Toulouse-I 1999 (sérgrein var náttúruauðlinda- og umhverfishagfræði).


Þá hefur hann lokið meistaragráðu (DEEQA) í stærð- og tölfræðilegri hagfræði frá háskólanum í Toulouse. Hann stundaði doktorsnám við sama háskóla og lauk prófi fyrr á árinu.


Gunnar starfaði sem hagfræðingur á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands 1996-1997, var hagfræðingur á Þjóðhagsstofnun 1997-1998 og stundakennari við Viðskiptaháskólann á Bifröst, 2002-2003. Hann starfaði sem aðjúnkt við Viðskiptaháskólann á Bifröst frá 2003 og dósent við Viðskiptaháskólann á Bifröst frá febrúar 2005.
Gunnar starfaði sem hagfræðingur í forsætisráðuneytinu frá 1. nóvember 2002 og verkefnisstjóri Þróunarsamvinnustofnun Íslands, frá september, 2005.


Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur stjórn Hagfræðistofnunar tekið afstöðu til eftirmanns Tryggva og hefur gert Gunnar að tillögu sinni. Það verður lagt fyrir viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands í lok vikunnar. Það er síðan háskólarektor sem skipar í starfið.