Dr. Þorbjörg Jensdóttir hefur verið ráðin deildarstjóri yfir vöruþróun og neytendarannsóknum hjá Matvælarannsóknum Íslands (Matís ohf.), segir í fréttatilkynningu. Þorbjörg mun hafa umsjón með nýsköpun og matvælarannsóknum sem meðal annars byggja á þörfum neytenda.

Þorbjörg, sem er fædd 1975, lauk tvöföldu doktorsprófi við Kaupmannahafnarháskóla árið 2006; annars vegar í heilbrigðisfræðum við tannlæknadeild háskólans og hins vegar svonefndri iðnaðargráðu (Industrial Ph.D.). Hún lauk meistaraprófi í næringarfræði við Háskóla Íslands 2002 og fjallaði lokaritgerð hennar um drykki og glerungseyðingu tanna.

Sælgætisfyrirtækið Toms Group A/S, sem framleiðir meðal annars Anton Berg, Gajol, Pingvin og Spunk, styrkti doktorsnám Þorbjargar í Danmörku. Þar þróaði hún nýja aðferðarfræði við rannsóknir á glerungseyðingu tanna af völdum súrra drykkja og fastrar fæðu, svo sem sælgæti. Toms Group hefur sótt um einkaleyfi á aðferðarfræði Þorbjargar.

Matís tók til starfa um síðustu áramót en þar sameinast starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsókna Keldnaholti (MATRA), Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar, líftæknifyrirtækisins Prokaria og Iceprotein.