Höskuldur Ásgeirsson hefur ákveðið að láta af störfum sem forstjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. í lok nóvember nk. og staðgengill forstjóra, Elín Árnadóttir, tekur þá við starfi forstjóra félagsins.

Elín er fædd árið 1971 og lauk cand.oecon. námi frá viðskiptadeild Háskóla Íslands árið 1996. Hún starfaði sem fjármálastjóri Snæfells 1997-1998, síðar í hagdeild Gelmer-Iceland Seafood í Frakklandi 1999-2000 og svo sem sérfræðingur hjá fyrirtækjaþróun Íslandsbanka 2000-2001. Elín var ráðin fjármálastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í júní 2001 og hefur auk þess verið staðgengill forstjóra frá 2006. Elín er gift Árna Ólafssyni framkvæmdastjóra og eigu þau eitt barn.

Höskuldur Ásgeirsson var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins og síðar forstjóri þegar rekstur Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og ríkisfríhafnarinnar var sameinaður og hlutafélagsvæddur 1. október 2000.

Í tilkynningu kemur fram að rekstur og umfang Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar ohf. hefur tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum 7 árum. Fjármunamyndun rekstrar og flestar kennitölur efnahags og rekstrar hafa breyst mjög til batnaðar frá því að starfsemin var hlutafélagsvædd. Þetta gerði félaginu meðal annars kleift að ráðast í stórfelldar framkvæmdir við stækkun og endurbætur í flugstöðinni.