Emil B. Karlsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar frá 1. október næstkomandi. Rannsóknasetrið hefur aðsetur í Háskólanum á Bifröst.

Í fréttatilkynningu kemur fram að hlutverk þess er að að fylgjast með þróun og breytingum sem varða verslun í landinu og sinna hagnýtum rannsóknum sem nýtast fyrirtækjum í greininni. Rannsóknasetrið vinnur einnig að bættri starfsmenntun verslunargreina. Rannsóknasetrið er rekið með stuðningi verslunarfyrirtækja, viðskiptaráðuneytis, SVÞ-Samtaka verslunar og þjónustu, Háskólans á Bifröst, Pokasjóðs auk þess sem setrið aflar sjálfsaflartekna.

Emil hefur undanfarin fimm ár verið verkefnisstjóri hjá SVÞ og m.a. sinnt menntamálum og ýmsum samskiptamálum fyrir samtökin. Þar áður var hann kynningarstjóri og forstöðumaður Evrópumiðstöðvar á Iðntæknistofnun. Emil er fil. kand. frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð í kynningartækni og BSc. í viðskiptafræði.