Nær ómögulegt er fyrir venjulegt fólk að fá lán í bönkum til að kaupa fyrirtæki, að sögn Gunnars Jóns Yngvasonar, fasteigna- og fyrirtækjasala hjá Viðskiptatorgi. „Þegar fólk vill fá lán fyrir kaupum á rekstri er ekki möguleiki að fá það afgreitt nema að einhvers staðar sé steinsteypa sem bankinn getur tekið veð í. Það er enginn í bönkunum sem skoðar undirliggjandi reksturinn, sem kaupa á, og metur hvort hann geti staðið undir afborgunum af láninu.“

Hann segir þó að eitthvað líf sé að færast í atvinnuhúsnæðismarkaðinn. „Það eru þó ekki fyrirtæki sem kaupa húsnæði sem þau starfa í, enda hafa þau engan pening til þess, heldur eru þetta efnamenn sem kaupa húsnæðið til að leigja út eða til að græða á síðar.“