Owe Wederbrand, fjármálastjóri, sænska netauglýsingafyrirtækisins TradeDoubler hefur ákveðið að hætta störfum hjá fyrirtækinu, segir í fréttatilkynningu. Íslenski fjárfestingasjóðurinn Arctic Ventures á 9,7% hlut í sænska fyrirtækinu.

Wederbrand hefur ákveðið að ráða sig hjá ónefndu fyrirtæki og mun fyrirtækið nú þegar hefja leit að nýjum fjármálastjóra, segir í tilkynningunni.

Í síðustu viku hætti bandaríska afþreyingarsamstæðan AOL Time Warner við kauptilboð sitt í TradeDoubler, sem hljóðaði upp á 900 milljónir Bandaríkjadali.

AOL bauð 215 sænskar krónur á hlut og hafði stjórn félagsins mælt með tilboðinu. Meirihluti hluthafa kaus hins vegar að hafna því. Nýlega birti greiningardeild Nordea bankans nýja greiningu á félaginu þar sem þeir töldu verðmatsgengið vera 275 krónur á hlut eða 22% hærra en tilboð AOL.