Friðrik Sigurðsson, forstjóri TM Software, hefur ákveðið að láta af störfum frá og með 1. janúar næstkomandi. Friðrik stofnaði TM Software undir nafni TölvuMynda fyrir 20 árum og hefur verið forstjóri félagsins síðan.

Friðrik tilkynnti um ákvörðun sína á starfsmannafundi í morgun. Við starfi forstjóra tekur Ágúst Einarsson sem verið hefur framkvæmdastjóri TM Software ? Infrastructure Management frá 2003, segir í tilkynningu.

Ákvörðun Friðriks er tekin að vel athuguðu máli en hann segir tíma til kominn að snúa sér að öðrum verkefnum. Starfsmenn TM Software og stjórn félagsins vilja þakka Friðriki fyrir vel unnin störf síðastliðin 20 ár en hann á að öðrum ólöstuðum heiðurinn af uppbyggingu TM Software og stöðu félagsins í dag.

TM Software er í dag eitt af stærstu fyrirtækjum í upplýsingatækni hérlendis með starfsemi í 11 löndum og rúmlega 1.800 viðskiptavini um allan heim. Ársvelta nemur á fimmta milljarð króna en um helmingur tekna fyrirtækisins kemur erlendis frá.

Innri vöxtur TM Software hefur verið um 50% á ári sl. fimm ár. Fyrirtækið hefur verið í fararbroddi í hugbúnaðargerð hérlendis og náð glæsilegum árangri með lausnir sínar erlendis. Hjá TM Software starfa um 450 manns. Afkoma flestra rekstrareininga TM Software er góð og mikill sóknarhugur í stjórn og starfsfólki.

Friðrik Sigurðsson lagði stund á nám í tölvunarfræði við Háskóla Íslands áður en hann stofnaði TM Software 1986. Hann hefur um árabil verið í forystusveit íslensks hugbúnaðariðnaðar og var einn helsti hvatamaður að stofnun Samtaka íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja. Þá gegndi hann formennsku í Fagráði í upplýsingatækni í fimm ár og formennsku í Staðlaráði í önnur fimm ár.

Friðrik hefur einnig, á vegum stjórnvalda, gegnt fjölmörgum nefndar- og stjórnarstörfum sem snerta málefni upplýsingatækniiðnaðar. Með verkum sínum hefur Friðrik skapað umtalsverð verðmæti byggð á þekkingu og þróunarstarfi. Friðrik hefur fjórum sinnum hlotið viðurkenningu sem einn af framsæknustu frumkvöðlum Evrópu en fyrr á þessu ári var Friðriki veitt viðurkenning Verðlaunasjóðs iðnaðarins fyrir framúrskarandi störf á sviði upplýsingatækniiðnaðar.

Ágúst Einarsson hefur verið framkvæmdastjóri TM Software ? Infrastructure Management frá 2003. Áður starfaði hann í fjögur ár sem svæðisstjóri fyrir Navision Software, tvö ár sem framkvæmdastjóri fyrir SAP og IBM hugbúnað á Íslandi og fimm ár sem framkvæmdastjóri TrackWell Software. Ágúst hlaut MS-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskólanum í Álaborg 1990 með áherslu á stjórnunaráætlanir og upplýsingatækni og BS-gráðu í vélaverkfræði frá sama háskóla frá 1988.