Promens hf. hefur ráðið Gest Þórisson í stöðu Framkvæmdastjóra Viðskiptaþróunar. Ráðning Gests er liður í þeirri stefnu félagsins að stækka með fyrirtækjakaupum og ytri vexti og mun það vera aðal áherslan í starfi hans. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Gestur hefur víðtæka reynslu af fyrirtækjakaupum frá fyrra starfi sínu hjá fyrirtækjaráðgjöf Kaupþings. Frá 2001 til 2005 starfaði Gestur hjá Georgia Pacific í Bandaríkjunum við aðgerðarannsóknir, framleiðsluskipulagningu, vörudreifingu og sölu- og markaðsstörf.

Gestur er með M.Sc. gráðu í aðgerðarannsóknum frá Georgia Institue of Technology og B.Sc. gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

?Promens hefur skapað sér orðspor sem leiðandi plastframleiðandi á heimsvísu og það eru margt áhugavert framundan. Það er spennandi að fá að takast á við svo mentaðarfull verkefni? segir Gestur í fréttatilkynningu.

Til að byrja með mun Gestur vinna náið með Arne Vraalsen, fráfarandi forstjóra Polimoon, sem Promens keypti undir lok síðasta árs. Gestur, sem hefur aðsetur á aðalskrifstofu félagsins í Kópavogu, tekur sæti í framkvæmdastjórn Promens.

?Promens hefur vaxið mikið undanfarin tvö ár og sú víðtæka þekking og reynsla sem Gestur býr yfir bæði í rekstri fyrirtækja og fyrirtækjakaupum mun gera okkur kleift að halda áfram að leggja áherslu á ytri vöxt félagsins. Við erum því mjög ánægð með að hafa fengið til liðs við okkur svo sterkan aðila.? segir Ragnhildur Geirsdóttir forstjóri Promens í fréttatilkynningu.

Um Promens hf.
Promens er leiðandi fyrirtækjasamsteypa í plastiðnaði með 63 verksmiðjur í 22 löndum og u.þ.b. 6.000 starfsmenn. Vörur samsteypunnar skiptast í þrjá megin flokka:
Pakkningar fyrir t.d. matvæli, lyf, hreinlætis- og snyrtivörur.
Íhlutir fyrir t.d. bíla-, þungavinnuvéla- og rafeindaiðnað.
Ker og tankar fyrir t.d. matvæla-, líftækni-, efna-, og byggingaiðnað.