Guðmundur Davíðsson hefur í kjölfar skipulagsbreytinga verið ráðinn forstjóri yfir starfsemi Eimskips á Íslandi. Gífurlegur vöxtur Eimskips á undanförnum mánuðum og árum hefur kallað á þær breytingar að Norður Atlantshafssvæði félagsins verður skipt í tvennt og er Ísland orðið að sérstöku sviði innan samsteypunnar. Guðmundur mun starfa við hlið Braga Þórs Marinóssonar sem verður forstjóri yfir Norður-Atlantshafssvæði Eimskips.  Þetta kemur fram í frétt frá félaginu.

?Félagið hefur tekið gríðarlegum breytingum á skömmum tíma," segir Baldur Guðnason, forstjóri Hf. Eimskipafélags Íslands í frétt frá félaginu. "Velta félagsins hefur nær tífaldast á undanförnum 3 árum. Félagið hefur nú starfsemi í yfir 30 löndum og eru starfsmenn nú um 14.500. Til samanburðar þá voru starfsmenn rétt um 1.200 fyrir 3 árum. Mikilvægt er að huga vel að starfseminni hér á Íslandi sem og annarsstaðar og er það meginmarkmiðið með þessari breytingu. Með þessari breytingu er lögð áhersla á að tryggja enn betri þjónustu og treysta tengsl við viðskiptavini félagsins.?

Nýr forstjóri yfir starfsemi Eimskips á Íslandi mun einbeita sér að rekstri og þróun á starfsemi Eimskips á Íslandi enda er sú starfsemi mjög mikilvæg í rekstri félagsins.

Forstjóri Norður-Atlantshafssvæðis mun fást við frekari uppbyggingu á svæðinu fyrir utan Ísland, einkum í Færeyjum og Noregi. Í Færeyjum er Eimskip nú þegar einn af stærstu atvinnurekendunum landsins með um 500 starfsmenn. Eimskip hefur lagt í miklar fjárfestingar í Noregi er með 20 skip í rekstri og hefur fjárfest í 7 nýjum skipum á skömmum tíma. Mikilvæg verkefni eru þar framundan m.a. við samþættingu reksturs á svæðinu.

Guðmundur P. Davíðsson hefur áralanga reynslu af stjórnun fyrirtækja ásamt því að hafa setið í stjórnum margra félaga. Hann starfaði nú síðast sem framkvæmdastjóri Fjárfestingafélagsins Grettis. Hann var þar áður forstöðumaður markaðsmála og vöruþróunar á fyrirtækjasviði Landsbankans á árunum 2003-2007. Hann var hjá SIF frá árinu 2000 til 2003 síðast sem framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá SIF í Frakklandi. Guðmundur starfaði hjá Samskipum um 12 ára skeið í ýmsum stjórnunarstörfum hérlendis og erlendis. Guðmundur er kvæntur Kristjönu Ólafsdóttur og á hann 3 syni.

Bragi Þór Marinósson hefur gengt stöðu framkvæmdastjóra Norður-Atlantshafssvæðis frá árinu 2006. Þar áður var hann framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Eimskips 2004-2006 og framkvæmdastjóri dótturfélaga Eimskips í Hollandi og Belgíu 1999-2004 en hafði áður gengt ýmsum störfum hjá félaginu. Bragi er kvæntur Erlu Sigrúnu Sveinsdóttur og eiga þau 2 dætur.