Gunnar Ingimundarson hefur verið ráðinn nýr framkvæmdastjóri HugarAx að því er kemur fram í frétt. Síðastliðið ár hefur Gunnar gegnt starfi forstöðumanns sviðs Eigin Lausna hjá HugAx. Gunnar var einn stofnenda Hugar hf. sem sameinaðist Ax hugbúnaðarhúsi á síðasta ári undir nafninu HugurAx.

Gunnar tekur við af Páli Freysteinssyni, sem hefur verið framkvæmdastjóri HugarAx frá sameiningu Hugar hf. og Ax hugbúnaðarhús í júní 2006.

Gunnar segir í tilkyningunni að mjög ánægjulegt sé að taka við starfi framkvæmdastjóra HugarAx. ,,Fyrirtækið er í mjög góðum rekstri, er með öflugan hóp starfsmanna og stóran viðskiptavinahóp. Sameiningin á síðasta ári við Ax hugbúnaðarhús tókst mjög vel. Það eru mörg áhugaverð verkefni framundan.??


HugurAx er eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki landsins, en áætluð velta fyrirtækisins á árinu er um 1,4 milljarðar. Viðskiptavinir HugarAx eru um 4.000 talsins, þar á meðal mörg af stærstu og öflugustu fyrirtækjum landsins. Hjá HugAx starfar um 135 manna hópur metnaðarfullra starfsmanna, sem hefur víðtæka þekkingu og reynslu á sviði upplýsingatækni. HugurAx býður kröfuhörðum viðskiptavinum fjölbreyttar lausnir og þjónustu m.a. á sviði viðskiptalausna, stjórnendalausna, starfsmannalausna, lausna fyrir orkugeirann og sérlausna segir í tilkynningu.