Gústaf Adolf Skúlason hefur verið ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, samtaka raforku-, hita- og vatnsveitna, og mun hann hefja þar störf um áramót, segir í fréttatilkynningu.

Gústaf hefur frá ársbyrjun 2001 gegnt starfi forstöðumanns stefnumótunar- og samskiptasviðs hjá Samtökum atvinnulífsins en starfaði þar áður meðal annars í fimm ár á nefnda- og alþjóðasviðum skrifstofu Alþingis.

Gústaf er með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og M.Sc.-gráðu í milliríkjasamskiptum frá London School of Economics. Þá hefur Gústaf lokið hluta MS-náms í stjórnun og stefnumótun við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands.


Hjá Samorku mun Gústaf meðal annars starfa að upplýsinga- og kynningarmálum en ákveðið hefur verið að leggja aukna áherslu á þau mál í starfsemi samtakanna.


Við starfi forstöðumanns stefnumótunar- og samskiptasviðs SA tekur Pétur Reimarsson sem undanfarin tvö og hálft ár hefur gegnt starfi verkefnastjóra á sviðinu.

Pétur er efnaverkfræðingur og með doktorsgráðu frá Tækniháskólanum í Lundi. Hann hefur víðtæka starfsreynslu úr atvinnulífinu auk þess að hafa starfað hjá hinu opinbera um tíma að loknu námi.