Heiðrún Jónsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri í yfirstjórn Eimskip en hennar verksvið verður yfirstjórn starfsþróunar- og samskiptasviðs ásamt lögfræðilegum verkefnum félagsins, segir í tilkynningu.

Hún lauk samvinnuskólaprófi frá Bifröst 1987 og stúdentsprófi frá VÍ 1989. Hún lauk kandidatsprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1995 og varð héraðsdómslögmaður haustið 1996. Hún tók próf í starfsmannastjórnun frá HA 1999 og lauk löggildingu í verðbréfamiðlun árið 2006.

Heiðrún starfaði sem lögmaður á Lögmannsstofu Akureyrar frá 1995-1998 og kenndi sjórétt við Stýrimannaskólann á Dalvík. Hún var starfsmannastjóri og lögfræðingur KEA og dótturfélaga frá september 1998 til maí 2001.

Heiðrún var forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála Símans 2001-2003. Hún tók til starfa hjá Lex lögmannsstofu árið 2003 sem framkvæmdastjóri Lex og síðar sem meðeigandi. Heiðrún er í sambúð með Jóhannesi Sigurðssyni aðstoðarforstjóra Milestone. Hún á tvö börn og þrjá stjúpsyni.