Íslenska hönnunarmerkið FÓLK Reykjavík og dreifingaraðilinn Noneka Oy hafa gert með sér dreifingarsamning á vörum fyrirtækisins í Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Noneka Oy er reyndur aðili á þessu sviði en meðal vörumerkja sem aðilinn dreifir á sömu mörkuðum eru til dæmis dönsku hönnunarrisarnir Fritz Hansen, samfélagsábyrga hönnunarfyrirtækið Mater, sem nýverið vann hönnunarverðlaun Wallpaper, og ljósaframleiðandinn Le Klint.  Noneka verður umboðsmaður FÓLKs og mun koma til með að markaðssetja og veita þjónustu í tengslum við sölu á vörum fyrirtækisins í löndunum. Líkt og fjallað var um undir lok síðasta árs hefur FÓLK einnig gert dreifingarsamning við norska dreifingaraðilann Brunt Hus.

„Við erum mjög spennt að byrja að vinna með þessum erlendu aðilum sem við höfum náð að semja við," segir Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri FÓLKs. „Frá árinu 2017 höfum við einbeitt okkur að vöruþróun, hönnun og prófunum hérlendis, auk þess að selja vörur okkar á innlendum markaði, og núna erum við komin á það skeið að hefja vöxt erlendis. Við höfum á skömmum tíma náð dreifingarsamningum á fimm nýjum og spennandi mörkuðum. Nú í byrjun höfum við einblínt á Norðurlöndin og Eystrasaltslöndin og stefnum á að komast inn á enn fleiri markaði í Evrópu á næstu misserum. Það er mikil grunnvinna sem þarf að ráðast í til að komast inn á erlenda markaði og því er hagkvæmast að fara inn á enn fleiri markaði á svæðinu. Á þessu ári er stefnan tekin á áframhaldandi uppbyggingu dreifingar fyrirtækisins auk breikkunar hönnunarlínu þess."

Auk þess sem vörum fyrirtækisins er dreift í ofangreindum löndum, eru vörurnar einnig seldar í verslunum í Belgíu, Þýskalandi og Bretlandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .