„Já, við höfum fundið fyrir því að fólk er að kaupa sér sólarlandaferðir á síðustu stundu,“ segir Margrét Helgadóttir, framkvæmdastjóri hjá Úrval útsýn. En eins og íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa eflaust tekið eftir þá hefur veðrið verið heldur hráslagalegt og sumir hafa gengið svo langt að segja að ekkert sumar sé komið. Og þá kjósa sumir að leita út fyrir landsteinana í leit að sól og hita.

Margrét tengir aukna aðsókn í sólarlandaferðir með litlum fyrirvara, við veðrið sem hefur verið á landinu undanfarnar vikur. „Fólk er að stökkva á síðustu stundu,“ segir Margrét. En er eitthvað af lausum sætum fyrir þá sem vilja sjá sólina? „Það er eitthvað laust í næstu viku og þá til Almeira á Spáni og Tenerife en þessi sæti eru á góðu verði,“ segir Margrét.

Fréttin birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.