Alfesca hefur ráðið Hrefnu Ingólfsdóttur í nýtt starf forstöðumanns samskiptasviðs félagsins og tekur hún strax til starfa í höfuðstöðvum Alfesca á Íslandi, að því er fram kemur í tilkynningu. Hrefna hefur víðtæka reynslu af almannatengslum og kynningar- og markaðsmálum en hún starfaði m.a. um langt skeið sem forstöðumaður kynningarmála Símans.

Hrefna, sem er 41 árs, útskrifaðist með BA-próf í stjórnmálafræði og fjölmiðlun frá Háskóla Íslands 1990. Hún hefur einnig lokið fjölda námskeiða í stefnumótun, markaðsmálum og stjórnun.

Áður en Hrefna kom til starfa hjá Alfesca útskrifaðist hún með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík og síðasta sumar var hún við nám og störf hjá Sarasin Chiswell fjárfestingarbankanum í London með áherslu á fjárfestatengsl. Árin 2001-2005 starfaði hún sem sérfræðingur, ráðgjafi og upplýsingafulltrúi hjá sendiráði Japans í Reykjavík.

Árin 1990-2001, starfaði hún fyrir Símann, lengst af sem upplýsingafulltrúi, og kom m.a. að endurskipulagningu og einkavæðingu félagsins. Um þriggja ára skeið var hún forstöðumaður ýmissa rekstrareininga, þ.á m. 118, Símaskrárinnar og Þjónustuvers Símans. Á námsárum sínum, 1983-1989, starfaði Hrefna sem blaðamaður á Morgunblaðinu og sem bankastarfsmaður hjá Búnaðarbankanum, nú Kaupþingi.

Hrefna var formaður Barnamenningarsjóðs 1997-2001 og hefur tekið virkan þátt í ýmsum félags- og góðgerðarmálum og gegnt þar trúnaðarstörfum.