Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur verið gengið frá því að Hreinn Jakobsson, fyrrverandi forstjóri Skýrr, taki við framkvæmdastjórastöðu hjá upplýsingatæknifyrirtækinu ANZA, sem sérhæfir sig í rekstri tölvukerfa.

Stofnandi félagsins og framkvæmdastjóri til þessa, Guðni B. Guðnason, hefur látið af störfum eftir rúmlega níu ár sem framkvæmdastjóri. Þetta var tilkynnt á fundi með starfsmönnum fyrirtækisins á miðvikudaginn. Guðni er eins og áður sagði einn af stofnendum ANZA og seldi hann hlut sinn um leið og gengið var frá starfslokasamningi við hann. Síminn er stærsti hluthafi ANZA.

Ráðning Hreins hlýtur að vekja nokkra athygli en ekki er langt síðan hann hætti sem forstjóri Skýrr. Eftir því sem komist verður næst hefur hann verið á launum hjá félaginu síðan enda hafði hann rétt til launa í eitt ár frá uppsögn. Samkeppnisákvæði í samningi hans voru hugsuð þannig að honum væri óheimilt að ráða sig til starfa hjá aðila í sama geira í tvö ár eftir að hann hætti á launaskrá.

Velta ANZA var 794 milljónir króna á síðasta ári. Þessi velta er einvörðungu af þjónustu þar sem ANZA selur hvorki vél- né hugbúnað. Hagnaður félagsins eftir skatta var 64 milljónir króna og hagnaður fyrir afskriftir, skatta og fjármagnsliði (EBITDA) var 150 milljónir króna sem er um 19% af tekjum félagsins. Ávöxtun eigin fjár var 38%, eiginfjárhlutfall 38% og veltufjárhlutfall 1,5. Hjá ANZA starfa nú um 85 manns.