Reikna má með að fjöldi þeirra sem starfa í fjármálageiranum muni færa sig í auknum mæli frá Bandaríkjunum til Asíu.

BBC greinir frá því að áhrifamikill starfsmaður á fyrirtækjasviði Credit Suisse hafi nýverið flutt sig frá New York til Asíu. Í kjölfar lánsfjárkreppunnar í Bandaríkjunum og Evrópu eiga fyrirtæki erfiðara með að fjármagna stærri verkefni og því minnka umsvif þeirra er veita fyrirtækjaþjónustu á þessum svæðum.

Áhrifin eru þó ekki jafnsterk í Asíu.

Samkvæmt samantekt Dealogic, sem útvegar fjármálafyrirtækjum lausnir í upplýsingatækni, hefur yfirtökum einkafjárfestingasjóða fjölgað um 15% á fyrsta ársfjórðungi, sé Japan undanskilið. Fjöldi samruna og yfirtaka hefur þó fækkað á heimsvísu.

Starfsmenn frá JPMorgan, Goldman Sachs og Blackstone hafa einnig fært sig milli markaðssvæða. Scott Moeller, prófessor við Cass Business School segir í samtali við BBC að eðlilegt sé að starfsmenn fjárfestingabanka færi sig þangað sem peningana er að finna.

„Þar sem ríkisfjárfestingasjóðir í Asíu hafa yfir miklum fjármunum að ráða hafa þeir nánast sloppið við lánsfjárkreppuna sem nú hrjáir fjármálamarkaði," segir Moeller.

Moeller heldur þó ekki að New York og London muni missa stöðu sína sem þungamiðja fjármálastarfsemi í heiminum.