Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, segir í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út í gær að afstaða samfélagsins til framkvæmda í Helguvík sé mun jákvæðari en áður.

Framkvæmd sem þessi hlýtur alltaf að vera pólitískt hitamál en Ragnar segist finna enn jákvæðari tón í samfélaginu. "Það virðist vera mjög mikill og almennur áhugi á að verkefnið nái fram að ganga þó vissulega heyri maður aðrar raddir líka. Við sjáum ekki annað en að það sé áhugi innan allra stjórnmálaflokka og sérstaklega í Suðurkjördæmi og á höfuðborgarsvæðinu. Það er ljóst að verkefni sem þetta mun hafa jákvæð áhrif á væntingar fólks sem skiptir miklu máli á þessum tímum. Þannig má segja að það séu ekki bara hin beinu áhrif sem skipti máli heldur ekki síður það að  hrinda verkinu af stað. Það getur haft jákvæð áhrif á fólk. Á meðan fólk sér ekki framúr núverandi ástandi heldur það að sér höndum en vonandi getur verk sem þetta ásamt ýmsum öðrum verkefnum sem unnið er að komið hreyfingu á hlutina," segir Ragnar í viðtalinu.

Sá pólitíski óróleiki sem hér hefur verið undanfarna mánuði hefur vissulega áhrif á verkefnið en Ragnar sagði að fjárfestingasamningurinn sem nú bíður afgreiðslu Alþingis hefði mikið að segja um framvindu verksins. "Það gefur okkur fast land undir fæturna og það er mjög mikilvægt við þessar aðstæður. Það væri slæmt ef ekki myndi nást að afgreiða málið á þessu þingi og það myndi að öllum líkindum hafa áhrif á framgang verksins."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í gær.