Jón Þórisson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri VBS fjárfestingabanka í stað Jafets S. Ólafssonar, sem hefur selt hlut sinn í fjárfestingarbankanum, segir í fréttatilkynningu.

Viðskiptablaðið greindi frá því í september að Jafet ákvað að selja tæplega fjórðungshlut sinn í VBS til fjárfestingafélagsins FSP, en fyrir átti félagið um 13% hlut í VBS.

Í tilkynningu frá VBS segir að uppstokkun hefur orðið í eigendahópi VBS fjárfestingarbanka og hefur ný stjórn verðið kjörin.

Jafet, sem leitt hefur bankann á undanförnum árum, hefur selt nær allan sinn hlut til FSP (Fjárfestingafélags Sparisjóðanna) og sest nú í stjórn bankans, auk þess sem Sund ehf. og Saxbygg ehf. hafa gengið til liðs við bankann.

?Stefna nýrrar stjórnar VBS er að efla fjárfestingarbankann og blása til nýrrar sóknar á markaðnum," segir í tilkynningunni.

Stjórnin skipti með sér verkum í gær og gekk frá ráðningu Jóns Þórissonar í starf framkvæmdastjóra. Jón hefur fjölbreytta reynslu úr fjármálalífinu en áður en hann hóf störf hjá VBS starfaði hann að ýmsum verkefnum fyrir eignarhaldsfélagið Samson, en þar áður sem aðstoðarforstjóri Íslandsbanka.

Jón Þórisson segist taka við góðu búi. ?Jafet Ólafsson hefur byggt upp gott fyrirtæki og í hans tið hefur VBS dafnað vel. Með nýjum og öflugum kjölfestufjárfestum hefur skapast gott tækifæri fyrir bankann til að taka næsta stökk og láta finna vel fyrir sér á markaðnum og það verður mitt verkefni, að fara fyrir góðum hópi samstarfsmanna í þeirri sókn," segir Jón.

Gísli Kjartansson er formaður nýrrar stjórnar VBS en Björn Ingi Sveinsson varaformaður. Aðrir í stjórn eru Jafet S. Ólafsson, Kristinn Geirsson og Ólafur Elísson.