„Skýrar og augljósar vöru- og verðmerkingar og sjálfsafgreiðsla er nokkuð sem einkennir báða hluti verslunarinnar. Matsölustaðurinn endurspeglar því hugsunina á bak við Ikea,“ segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri Ikea. Velta Ikea í matsölu hefur aukist talsvert á síðastliðnum árum eða frá árinu 2006 þegar verslunin flutti úr Holtagörðum í Garðabæ. Þá nam hún um 80 milljónum króna. Nú er hún komin í um 700 milljónir.

„Það er stutt í að við náum milljarði í veltu,“ segir Þórarinn í samtali við Viðskiptablaðið um rekstur Ikea.

Hann er stoltur af veitingastaðnum og þeim árangri sem náðst hefur þar.

„Allar verslanir Ikea eru með matsölu, en flestar láta nægja að selja kjötbollur og meðlæti. Matsölustaðirnir ytra eru ekki stór hluti af rekstri viðkomandi verslana, en því er öðruvísi farið hér. Líklega er það að hluta til vegna þess að minn bakgrunnur er í matvælaframleiðslu og -sölu, en ég legg mikinn metnað í matsölustaðinn okkar. Mér finnst gaman að sjá hversu langt við get- um farið í að selja góðan mat á lágu verði,“ segir Þórarinn og heldur áfram: „Margir halda að við getum ekki verið að græða á matsölustaðnum vegna þess hve verðið er lágt, en það er rangt. Framlegðin er e.t.v. ekki gríðarleg, en eigum við ekki að segja að hún sé sæmileg. Það er leiðinlegt að koma inn í tóma verslun. Fólk vill vera innan um annað fólk og matsölustaður eins og okkar dregur að fólk.“

Rætt er við Þórarinn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .