Jón Gerald Sullenberger, eigandi verslunarinnar Kosts í Kópavogi, gagnrýnir harðlega strangar og flóknar reglur sem gilda um innflutning á matvælum til Íslands.

Í viðtali við Viðskiptablaðið sem kom út í morgun fer Jón Gerald yfir hina ýmsu þætti sem tengjast rekstrinum, samskiptum við birgja, flókna samkeppnisstöðu, íþyngjandi reglur ESB og íslenskra stjórnvalda auk þess sem hann tjáir sig um eftirmál Baugsmálsins.

Í viðalinu rekur Jón Gerald flóknar reglur sem koma til vegna reglugerða frá Evrópusambandinu. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en er þess í stað birtur í heild sinni hér.

Jón Gerald segir flókið regluverk þó ekki einskorðast við Evrópusambandið, hér á landi séu líka strangar og flóknar reglur um innflutning.

„Fyrir síðustu jól hefði ég getað flutt inn ódýrt kalkúnakjöt frá Bandaríkjunum. Það er hins vegar bannað af því að menn óttast sýkingar, þó engin hafi sýkst af þessu kjöti erlendis,“ segir Jón Gerald.

„Þess í stað er einn framleiðandi á Íslandi sem framleiðir kalkúnkjöt og íslenskum neytendum er gert skylt að halda þessum eina aðila uppi með því að kaupa kílóið á um 1.300 kr. Við hefðum getað selt kalkúnakjöt á um 300 kr./kg. í stað 1.300 kr./kg. Menn eru mjög hræddir við að flytja hingað kjöt- og mjólkurvörur og bera alltaf fyrir sig mögulega sýkingar. Ég veit nú samt ekki til þess að Íslendingar séu að taka með sér nesti þegar þeir fara til útlanda. Þeir fara út og borða allan þennan mat sem er á boðstólum úti án þess að koma heim í kistu.“

Jón Gerald segir að ekki megi gleyma því að nágrannaþjóðir okkar kunni líka að meðhöndla matvæli, Íslendingar hafi enga sérstöðu í því.

„Menn mega ekki vera hræddir við að flytja inn kjöt. Við eigum að vera dugleg við það að flytja út lambakjötið okkar  og selja það á hæsta mögulega verði. En við eigum líka að leyfa innflutning á unnu nautakjöti, kalkún, svínakjöti og svo frv,“ segir Jón Gerald.

„Það er mjög auðvelt að flytja inn kjöt sem er unnið í viðurkenndum sláturhúsum og kjötvinnslum. Ég hef margoft skoðað mikið úrval af glæsilegu áleggi í verslunum erlendis og velt því fyrir mér af hverju við getum ekki boðið íslenskum neytendum upp á það sama á góðu verði. Það er alltaf sama sagan, allt bannað!“

Nánar er rætt við Jón Gerald í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.