Margt hefur gerst í rekstri Toyota á Íslandi frá því að Úlfar Steindórsson tók við sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins árið 2005. Efnahagshrunið var öllum söluaðilum bifreiða erfitt en nú eru bjartir tímar framundan í rekstrinum.

„Þó svo að bílasalan á síðasta ári hafi verið í kringum 15.000 bílar í heildina, þá voru fluttir inn 1.000 notaðir bílar, þannig að á heildina litið komu um 16.000 bílar til landsins. Ef þú skoð­ar 2006 þá voru fluttir til landsins held ég í kringum 20.000 nýir bílar og 3.000 notaðir, 23.000 bílar á þeim tíma á móti 16.000 bílum í fyrra. Í þeim tölum voru kannski 2.000 bílar til bílaleignanna á meðan þeir voru um 6.000 á síðasta ári,“ segir Úlfar en hann segir að sá hluti sem snýr að einstaklingum og fyrirtækum eigi enn svolítið eftir.

„Þegar verið er að tala um að ástandið sé eins og fyrir hrun þá er verið að bera saman heildarfjölda á innfluttum nýjum bílum og ekki tekið tillit til þess hversu mikið fer inn í bílaleigurnar.“

„Fólk er ekki fífl“

„Ég upplifi það þannig að bæði einstaklingar og fyrirtæki eru að nálgast þetta allt öðruvísi en fólk gerði hér árum áður. Það er alltaf verið að segja að fólk hafi ekkert lært af hruninu en það er bara vitleysa. Fólk lærði alveg ótrúlega mikið af hruninu. Við sjáum að fólk fer miklu varlegar í bílakaup. Fyrst fékk fólk leið­ rétt erlendu lánin sín, fasteignalánin sín og síðan fékk fólk leiðréttingu á verð­tryggðu lánunum sínum. Fólk streymdi ekkert hingað inn og keypti nýjan bíl.

Það er verið að tala niður til fólks þegar verið er að segja að það hafi ekkert lært neitt. Fólk er farið að haga sér með allt öðrum hætti, fer miklu varlegar og er að horfa til þess að greiða niður skuldir en ekki bara að auka þær. En bílasalan er að vaxa og fólk er að kaupa meira af minni bílum heldur en áður. Það er miklu meiri skynsemi í þessu síðustu árin og ég vona að hún haldi áfram. Ég veit ekki hvort það verður en ég trúi því. Fólk er búið að læra, búið að fara í gegnum þetta og þetta er ekki eins og var þá. Það er verið að tala um þetta oft og tíðum með mjög ósanngjörnum hætti gagnvart almenningi. Fólk er ekki fífl.“

Nánar er rætt við Úlfar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .