Magnús Stephensen hefur tekið við stöðu aðstoðarforstjóra XL Leisure Group, dótturfyrirtækis Avion Group, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Magnús hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaþróunar Avion Group frá stofnun félagsins.

Phil Wyatt verður áfram forstjóri XL Leisure Group. Magnús er 33 ára og er menntaður í hagfræði og alþjóða viðskiptum frá University of Colorado. Magnús er í sambúð með Bergljótu Þorsteinsdóttur og eiga þau saman þrjá syni.

XL Leisure Group er ný sameinuð afkomueining innan Avion Group og tekur til dótturfélaga innan Avion Group í þremur heimsálfum. Félögin starfa öll á sviði leiguflugs og ferðaheildsölu og þjónusta ferðaskrifstofur víðs vegar um heim. Mestu umsvif hinnar nýstofnuðu samsteypu eru í Evrópu en XL Leisure Group hefur innan sinnan vébanda fyrirtæki sem ráða yfir flugrekstrarleyfum í sex löndum og býður samsteypan upp á flug til yfir eitt hundrað áfangastaða í öllum byggðum heimsálfum. Áætlanir XL Leisure Group gera ráð fyrir veltu upp á tvo milljarða bandaríkjadala miðað við heilt rekstrarár.

Innan XL Leisure Group eru dótturfyrirtæki Avion Group; Excel Airways Group, Star Europe og Star Airlines og jafnframt 19% eignarhlutur í Extra Airways í Bandaríkjunum og 5% eignarhlutur í Advent Air sem rekur flugfélagið Skywest í Ástralíu.

Umsvif leiguflugs- og ferðaþjónustu hluta (Charter & Leisure) Avion Group hafa vaxið hratt að undanförnu. Fyrst með kaupum á Star Airlines, öðru stærsta leiguflugfélagi Frakklands, svo stofnun Star Europe í Þýskalandi og nú síðast stofnun Excel Airways á Írlandi. Sumarið 2007 verða því flugfélög á vegum leiguflugs- og ferðaþjónustu hluta (XL Leisure Group) Avion Group starfandi á ferðamannamarkaði sem telur 205 milljónir íbúa.

Áætlað er að farþegar XL Leisure Group verði yfir fimm milljónir á árinu. Næsta sumar er áætlað að yfir 40 vélar verði í rekstri XL Leisure Group, átta Airbus og Boeing vélar hjá Star Airlines, fimm Airbus vélar hjá Star Europe, um 30 Boeing vélar hjá Excel Airways Group og fjórar Boeing vélar hjá Xtra Airways segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.