Már Wolfgang Mixa hefur verið ráðinn til NordVest verðbréfa hf. Már hefur áralanga reynslu á sviði verðbréfa, meðal annars hjá Morgan Stanley, Búnaðarbanka Íslands, SPH Verðbréfum og sem framkvæmdastjóri Verðbréfaþjónustu Sparisjóðsins.

Í frétt félagsins kemur fram að NordVest verðbréf hefur ekki eins og stendur eignastýringasvið og er Már ráðinn til að setja það upp og stýra því með því markmiði að bjóða upp á óháða eignastýringu og ráðgjöf.

Skúli Sveinsson, framkvæmdastjóri NordVest, segir að reynsla Más, bæði innan- og utanlands, flýti ferlinu í mótun eignastýringarsviðs. ?Már hefur viðamikla reynslu í þróun verðbréfaþjónustu og stofnun verðbréfafyrirtækja. Már hefur auk þess sýnt í störfum sínum óhæði í ráðgjöf og umfjöllun varðandi verðbréf sem fellur vel að stefnu NordVest verðbréfa.? Már hefur störf í dag.