Þann 1.janúar 2007 tekur Svíinn Max Dager við stöðu forstjóra Norræna hússins í Reykjavík, segir í fréttatilkynningu.

Max Dager kemur úr óháða menningargeiranum. Hann var einn af stofnendum götuleikhópsins Cirkus Cirkör, en þar vann hann fyrst og fremst að alþjóðasamskiptum.

Dager hefur bakgrunn í menningargeiranum og hefur starfað við alþjóðleg verkefni til margra ár, meðal annars við mörg evrópsk samstarfsverkefni um sviðslist, hann hefur verið verkefnisstjóri fyrir víetnamska menningarráðuneytið og fyrir samtökin Union Internationale de la Marionettes. Sem framleiðandi hefur hann sett upp sviðsverk í öllum heimshlutum, frá Japan í austri til Kólumbíu í vestri.

Eins og er, er hann verkefnisstjóri við uppsetningu fræða- og menningarsetursins Garðarshólma á Húsavík.

Norræna húsið á að verða mikilvægur fundarstaður á alþjóðavísu, segir Max.

Hann vonast eftir breiðu samstarfi við íslenskt menningar- og vísindasamfélag og norrænt atvinnulíf. Hann telur að nútímavæða þurfi húsið og að það eigi að brúa bilið milli Íslands og umheimsins, verða einskonar sýningaraðsta fyrir íslenska og norræna menningu.

Norræna húsið er elsta norræna stofnunin sinnar tegundar, var opnað árið 1968, en húsið er hannað af finnska arkitektinum Alvar Aalto. Norræna húsið er sannkallað menningarhús með stóru bókasafni þar sem hægt er að ná sér í bækur og blöð á öllum norrænu tungumálunum.