Íslandsprent hefur ráðið nýja starfsmenn til að sinna auknum verkefnum fyrirtækisins en það býður upp á alhliða prentþjónustu á sem hagkvæmustum kjörum, í mestu mögulegu gæðum og á sem stystum tíma eins og segir í tilkynningu félagsins. Starfsmenn Íslandsprents eru þrjátíu talsins.

Sigríður Kr. Hafþórsdóttir

Sigríður Kr. Hafþórsdóttir hefur hafið störf hjá Íslandsprenti sem verkefna- og gæðastjóri. Didda, eins og hún er betur þekkt innan prentgeirans, er prentsmiður að mennt og hefur öðlast mikla reynslu í sínum fyrri störfum sem prentsmiður og sölumaður. Hún vann sem prentsmiður frá 1989 og síðan sem sölumaður frá 2001. Sigríður, sem vann áður í Odda og Prentmeti, tekur við nýjum verkum sem berast til Íslandsprents og fylgir þeim eftir alla leið til viðskiptavinarins.

Magnús Már Magnússon

Magnús Már Magnússon hefur hafið störf hjá Íslandsprenti. Magnús Már er prentsmiður að mennt með mikla reynslu en hann hefur unnið við fagið síðan 1990. Vinnustaðir hans hafa verið Oddi, Offsetþjónustan og Prentmet. Magnús Már hefur unnið við uppsetningu prentgripa og þá hefur hann í nokkur ár unnið mikið við umbúðaframleiðslu og hefur öðlast umtalsverða reynslu í þrívíddarhönnun.

Jón Þorkell Gunnarsson

Jón Þorkell Gunnarsson hefur hafið störf hjá Íslandsprenti. Jón Þorkell lærði offsetprentun í Kassagerðinni. Auk þess hefur hann unnið hjá Plastprenti og Prentmeti.

Hafdís Hlöðversdóttir

Hafdís Hlöðversdóttir hefur hafið störf hjá Íslandsprenti. Hún hefur unnið í níu ár við frágang prentgripa. Áður vann hún hjá Prisma Prentbæ, Prisma Prentkó og Svansprenti.