Kristinn Albertsson hefur tilkynnt stjórn Alfesca hf. að hann hyggist láta af störfum sem fjármálastjóri félagsins. Við starfi hans mun taka Philippe Perrineau sem er fjármálastjóri Labeyrie, dótturfélags Alfesca í Frakklandi segir í frétt félagsins.

Í starfi sínu sem fjármálastjóri hefur Kristinn verið í lykilhlutverki í þróun og stefnumörkun Alfesca samstæðunnar undanfarin ár. Má nefna kaupin á Lyons Seafoods í Bretlandi árið 2003 og vel heppnað umbreytingarferli sem hófst með kaupunum á Labeyrie Group árið 2004.

?Kristinn lætur af störfum eftir farsæl störf fyrir Alfesca. Framlag hans hefur verið mikils metið og við munum sannarlega sakna áhuga hans, dugnaðs og áræðni?, segir Xavier Govare, forstjóri Alfesca í tilkynningu félagsins. ?Kristinn skilur við fjárhagslega traust og öflugt fyrirtæki með bjarta framtíð. Fyrir hönd starfsmanna þakka ég honum vel unnin störf á liðnum árum og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.?

?Eftir að hafa starfað í 11 ár hjá Alfesca og tekið virkan þátt í að þróa og umbreyta starfseminni fannst mér vera rétti tíminn til að takast á við ný verkefni. Það hafa verið forréttindi að vinna hjá félaginu og sérlega gefandi að hafa tekið þátt í þeim breytingum sem skapað hafa grundvöll að áframhaldandi vexti og viðgangi þess. Ég lít sáttur til baka og óska félaginu og starfsmönnum þess alls hins besta,? segir Kristinn Albertsson í tilkynningunni.

Kristinn mun starfa hjá félaginu næstu mánuði á meðan nýr maður er að taka við starfi fjármálastjóra samhliða því sem hann mun hafa umsjón með ýmsum verkefnum sem eru vel á veg komin.

Philippe Perrineau, sem tekur við starfi fjármálastjóra, hóf störf sem fjármálastjóri hjá Labeyrie árið 2000 en félagið var þá skráð í Kauphöllinni í París. Hann kom m.a. að afskráningu á Labeyrie árið 2002 þegar félagið var keypt af sænska fjárfestingasjóðnum Industri Kapital. Philippe Perrineau situr í framkvæmdastjórn Alfesca.