Þann 1. janúar næstkomandi mun Shad Hallam taka við af Mikael Skogsberg sem gegnt hefur stöðu framkvæmdarstjóra hjá DHL á Íslandi síðan í nóvember 2005 að því er segir í tilkynningu fyrirtækisins.

Shad Hallam er fæddur árið 1971 í Sydney í Ástralíu. Hann er með B. Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Southern Cross University í Lismore í Ástralíu og MBA gráðu frá Macquarie Graduate School of Management í Sydney. Shad hefur starfað hjá höfuðstöðvum DHL á Norðurlöndunum í Stokkhólmi síðan 2004. Verkefni hans þar hafa aðallega falist í innleiðingu frammistöðumatskerfa og umsjón kostnaðar- og fjármálagreiningar.

Hjá DHL á Íslandi starfa 67 manns í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli. Fyrirtækið hefur verið leiðandi í hraðflutningum frá því það hóf störf á Íslandi árið 1982. Árið 2004 hóf DHL að bjóða viðskiptavinum sínum upp á flug- og sjófrakt og býður því upp á alhliða flutningsþjónustu. Á heimsvísu er DHL markaðsleiðandi í hraðflutningum, landflutningum og flugfrakt. Starfssemi DHL nær til 220 landa og svæða og starfa 285,000 manns hjá fyrirtækinu.

DHL er í 100% eigu Deutsche Post World Net.