Olivier Brémond hefur tekið sæti í stjórn CAOZ hf. Hann hefur að baki langa reynslu og markverðan árangur í framleiðslu á sjónvarpsefni að því er kemur fram í tilkynningu fyrirtækisins.

Olivier stofnaði og rak með Pascal Breton, Marathon International sem er stærsta framleiðslufyrirtæki á sjónvarpsefni í Frakklandi en seldi sinn hluta í fyrirtækinu fyrr á árinu til Bridgepoint fjárfestingasjóðsins.

Olivier framleiddi yfir 2000 sjónvarpsþætti á meðan hann rak Marathon. Má meðal annars nefna þáttröðina ?St. Tropez? sem er sú sjónvarpsþáttaröð sem framleidd hefur verið lengst allra þáttaraða í Evrópu. Olivier hefur jafnframt komið að framleiðslu hundruða heimildarmynda og þátta með fjölmörgum sjónvarpsstöðvum. Má meðal annars Discovery, National Geographic, Animal Planet og fleiri.

Undir stjórn Olivier hefur Marathon jafnframt verið stórtækt í framleiðslu á teiknimyndaþáttum fyrir sjónvarp og hefur framleitt nokkrar af vinsælustu þáttaröðum í Evrópskri sjónvarpsteiknimyndagerð eins og Totally Spies, Santa Claus þáttaröðina, Marsupilami (Gormur) og fleiri.

CAOZ hf. framleiðir þrívíðar teiknimyndir ætlaðar fyrir alþjóða markaði. Fyrirtækið framleiddi Litlu lirfuna ljótu sem hefur selst mest allra DVD diska nokkru sinni á Íslandi og setti aðsóknarmet fyrir stuttmynd í kvikmyndahúsum árið 2002. Fyrirtækið hefur nýlokið framleiðslu á Önnu og skapsveiflunum í leikstjórn Gunnars Karlssonar, eftir handriti Sjón. Myndi skartar í enskri útgáfu meðal annars röddum Terry Jones, Damon Albarn og Bjarkar, með tónlist eftir Julian Nott í flutningi Brodsky kvartettsins. Framleiðendur Önnu eru Hilmar Sigurðsson og Arnar Þórisson. Anna og skapveiflurnar verður frumsýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi í janúar.

Auk eigin teiknimyndaframleiðslu hefur CAOZ komið að framleiðslu yfir 50 sjónvarpsauglýsinga. CAOZ vinnur nú að undirbúningi að framleiðslu á 26 sjónvarpsþáttum byggðum á Önnu og jafnframt að þróun á sinni fyrstu þrívíðu teiknimynd í fullri lengd.

CAOZ hf. er í eigu starfsmanna, Brú Venture Capital og einkafjárfesta en í félaginu eru alls 20 hluthafar. Fyrirtækið er stofnað árið 2001.