Oscar Crohn tekur í dag við starfi Guðmundar Þórðarsonar sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Straums og sæti í framkvæmdastjórn bankans. Oscar mun áfram gegna stöðu útibústjóra Straums í Kaupmannahöfn. Svanbjörn Thoroddsen tekur við nýju starfi sem forstöðumaður fyrirtækjasviðs Straums á Íslandi og í Bretlandi ásamt því að vinna með William Fall að viðskiptaþróun bankans. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Samið hefur verið um að Guðmundur (ásamt B2B Holdings ehf.) kaupi af Straumi ráðandi hlut í Property Group A/S og taki við stjórnunarstarfi fyrir það félag. Straumur mun áfram eiga hlut í Property Group sem minnihlutaeigandi. Fyrirtækin tvö hafa í dag undirritað samkomulag sem tryggir áframhaldandi náið samstarf þeirra á næstu árum.

?Við erum lánsöm að Oscar Crohn taki við stöðu framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs," segir William Fall í fréttatilkynningu. "Oscar hefur leitt skrifstofu okkar í Kaupmannahöfn og hann og hans lið hafa átt góðu gengi að fagna á undanförnum árum. Það er einlæg skoðun mín að Oscar sé rétti einstaklingurinn til að lyfta fyrirtækjasviði Straums á næsta stig og stuðla að því að Straumur nái markmiðum sínum um að verða leiðandi norrænn fjárfestingabanki. Það er jafnframt traustvekjandi að samtímis því að við látum af hendi ráðandi hlut í Property Group tryggjum við áframhaldandi náið viðskiptasamstarf við það félag.?