Pétur Pétursson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri tekjusviðs 365 miðla ehf. Pétur hefur störf hjá félaginu í næsta mánuði segir í tilkynningu. Innan tekjusviðs fer fram öll sala áskrifta á sjónvarpsstöðvum 365 miðla og auglýsingasala ljósvakamiðla félagsins og Fréttablaðsins.

Pétur hefur víðtæka reynslu á sviði fjölmiðla, markaðs- og sölumála. Hann hefur frá árinu 2005 verið framkvæmdastjóri vátrygginga- og fjármálaþjónustu Tryggingamiðstöðvarinnar. Þar áður var Pétur forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála hjá Vodafone, frá árinu 2000 til 2005, og bar þar m.a. ábyrgð á samskiptum við fjölmiðla og fjárfesta, auk þess að sinna stefnumótunarvinnu á skrifstofu forstjóra. Pétur starfaði einnig í hartnær áratug sem blaðamaður á DV og fréttamaður á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Pétur lauk BA-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1992.

Helgi Björn Kristinsson lætur af starfi framkvæmdastjóra tekjusviðs innan tíðar og hefur ákveðið að hasla sér völl á nýjum vettvangi segir í tilkynningu.