Drífa Snædal var kjörin forseti Alþýðusambandsins á nýliðnu sambandsþingi með um tveimur þriðju hluta atkvæða. „Ég held að allir hafi metið það sem svo að það væri rosalegt hlutverk næsta forseta, og allra hagur, að sameina hreyfinguna. Ég tel að ástæðan fyrir því að ég var kjörin sé sú að ég hafi þá möguleika, ég njóti trúnaðar úr öllum áttum, og þess vegna hafi þótt skynsamlegt að kjósa mig. Fólk sá í mér einhvern samnefnara.“

Athygli vakti að ekkert mótframboð barst frá hinum nýja væng innan forystu verkalýðshreyfingarinnar, og hafa sumir spurt sig hvort túlka megi það sem svo að hann líti þar með á Drífu sem sinn fulltrúa. Drífa segir það mikla einföldun að skipta verkalýðshreyfingunni upp í „lið“, en að samband sitt við nýja fulltrúa sé gott. Hún setur sig ekki sérstaklega á móti þeirri orðræðu sem hin nýja hreyfing hefur viðhaft.

Hún segist oft og tíðum vera að segja það sama, þótt hún orði hlutina á annan hátt. „Ég hef ekkert sérstaklega verið að nota sömu orð, en samhljómurinn er ágætur. Fólk bara notar það tungutak sem það vill. Þær kröfur sem hafa komið fram finnst mér ekkert sérlega róttækar. Mér finnst krafa um aukinn jöfnuð og að fólk geti lifað af laununum sínum ekkert sérlega róttæk.“